top of page
_DSC0535-1.jpg

GYRÐIR ELÍASSON?

HVER ER

Ljósmynd: Nökkvi Elíasson

Gyrðir Elíasson er fæddur í Reykjavík, 4. apríl 1961. Hann fluttist með foreldrum sínum norður á Sauðárkrók um tveggja ára aldur og bjó þar fram yfir tvítugt, en er ættaður frá Borgarfirði eystra og dvaldi þar mikið á sumrin hjá afa sínum og ömmu í móðurætt. Gyrðir lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum á Sauðárkróki 1982 og fór síðan suður í Háskólann – nánar tiltekið bókmenntafræði. Árið eftir reyndi hann fyrir sér í Kennara-háskóla Íslands, en komst fljótt að því að það hentaði honum ekki. Hann bjó samt á Borgarfirði eystra einn vetur og kenndi myndlist, en var í rauninni fyrst og fremst að baksa við að skrifa. Eftir veturinn þar var honum nokkuð ljóst að kennsla hentaði honum ekki og sú hugmynd var farin að mótast að fást við skriftir sem lífsstarf.

Gyrðir bjó um um skeið í Borgarnesi og á Akranesi, en seinna í Reykjavík og hefur nánast alla sína full-orðinsævi unnið við ritstörf. Hann hefur sent frá sér fjölda verka af ýmsu tagi: ljóðabækur, skáldsögur og smá-sagnasöfn, en fyrsta útgefna bók hans var ljóðabókin Svarthvít axlabönd frá árinu 1983. Fyrsta skáldsaga kom svo út 1987, Gangandi íkorni, en sú saga er byggð á sögu sem hann skrifaði fimm ára gamall með sama titli. Hann hefur einnig verið ötull þýðandi erlendra bókmennta, meðal annars sagna eftir ameríska frumbyggja, og hefur þýtt fjórar af skáldsögum bandaríska rithöfundarins Richards Brautigan. Alls hefur hann þýtt 25 bækur.

Eftir Gyrði liggja ríflega 40 frumsamdar bækur: skáldsögur, ljóð, smásögur og smápósar. Verk hans hafa verið þýdd á fjölmörg tungumál og eru erlendar útgáfur þeirra á sjötta tug talsins. Sjá meira.

Gyrðir hefur hlotið ýmsar viðurkenningar og tilnefningar fyrir verk sín og þýðingar, til að mynda Íslensku bók-menntaverðlaunin árið 2000 fyrir smásagnasafnið Gula húsið og Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2011 fyrir smásagnasafnið Milli trjánna. Ennfremur Íslensku þýðingarverðlaunin 2012 fyrir ljóðasafnið Tunglið braust inní húsið og 2015 fyrir ljóðaúrvalið Listin að vera einn eftir japanska skáldið Shuntaro Tanikawa.

Sjá meira.

Undanfarin ár hefur Gyrðir hneigst æ meira að málarlistinni og hafa myndir hans meðal annars birst á hans eigin bókakápum. Vorið 2024 hélt hann málverkasýningu í Garði með rúmlega 1200 smámyndum. Sú sýning vakti mikla athygli og hlaut fádæma aðsókn og einróma lof. Á vefsíðu um myndlist hans má sjá mörg og ólík verk. Sjá meira.

Gyrðir er búsettur í Garði á Reykjanesi og er giftur Kristínu Snorradóttur hjúkrunarfræðingi. Dætur þeirra eru Sigfríð Rut og Theódóra. Dóttir Gyrðis frá fyrra hjónabandi er Elísa. Foreldrar Gyrðis voru Ásthildur Ísidóra Sigurðardóttir (1935-2024) og Elías Björn Halldórsson (1930-2007) listmálari. Bræður hans eru Erlingur Nökkvi ljósmyndari og Sigurlaugur málari og ljóðskáld.

2024 VEFSÍÐUGERÐ OG UMSJÓN: NÖKKVI ELÍASSON
bottom of page